Sunday, September 30, 2007

Góður sunnudagur

Klukkan er 12:30, Bærinn og allur fjörðurinn skarta milljónum litbrigða af gulu og rauðu og veðrið er fallegt haustveður. Hornið af Pollinum sem ég sé út um gluggann minn er spegill. Undirleikur er í höndum Pink Floyd, hvað gæti verið meira viðeigandi?
Síðan ég kom heim frá Spáni fyrir ca. 3 vikum hef ég varla litið upp úr vinnu. Nú gæti einhver haldið að mér þætti það verra en merkilegt nokk þá er þetta mikil blómatíð. Mikið að gera á sjúkrahúsinu (full vinna) og nóg að gera í kennslu í HA þar sem ég er með heilsusálfræði í fyrsta skipti (næ að vera ca. einum kafla á undan nemendum) og almenna sálfræði sem ég er nú að keyra í þriðja sinn og því að sjóast. Svo er ég einhvers konar co-pilot í félagssálfræði sem er mögulega skemmtilegasta undirgrein sálfræðinnar. Mjög gaman sumsé,
Skemmtilegasta og líklega mest gefandi verkefnið hefur þó verið kennsla í s.k. grunnmenntaskóla hjá Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar. Kenni þar tveimur hópum fólks á aldrinum 28-58 ára sem flest hver eru að hefja nám á framhaldsskólastigi í fyrsta sinn á ævinni. Minn hluti námsins þeirra heitir sjálfstyrking og samskipti og það er virkilega gaman að fá að kenna "venjulegu" fólki um þessi prinsipp sem ráða svo miklu um það hvernig við hegðum okkur og bregðumst við í samskiptum.
Annars forframast maður á fleiri sviðum þessa dagana. Á föstudag sat ég í pallborði á haustfundi Sálfræðingafélagsins. Man nú ekki nákvæmlega yfirskrift pallborðsins en umræðuefnið var menntun og símenntun stéttarinnar. Það gekk vel en fundurinn allur var nokkuð skemmtilegur. Að mörgu leiti var þetta eins og 80 manna sjálfstyrkingarsamkoma, sumt eldra fólki í hópnum (traumatiserað af þeim tíma þegar lítið var hlustað á þau í vinnunni) enn að minna sig á að sálfræðingar eru nú bara mjög töff lið. Við sem yngri erum þekkjum þá hlið ekki eins vel.
Í tilefni fundarins gerðist það í fyrsta sinn á minni ævi að ég flaug með áætlunarflugi gersamlega allslaus, þ.e. ekki einu sinni handfarangur; lenti á Reykjavíkurflugvelli kl 15:30 labbaði upp í Öskju og svo aftur norður kl 20:00 lenntur heima 20:45.
Ég hafði velt því fyrir mér að taka með mér bol eða skyrtu til skiptanna, svona til öryggis, en ákvað svo að svoleiðis öryggishegðun væri bara fyrir kvíðasjúklinga. Það er líka pínu töff (ekki) að tékka sig inn ekki einu sinni með skjalatösku. Í ljósi þessara vangaveltna pirraði það mig því óendanlega mikið þegar ég skvetti yfir mig kaffi á leiðinni suður og þurfti að sitja fyrir framan kollegana með stærðar kaffiblett á vömbinni miðri.
Stundir bestar...

2 comments:

Anonymous said...

Hahaha fáviti :) Þú ert ekkert jafn svalur og þú heldur að þú sért, held það sé kominn tími til þess að þú sættir þig við það! :)

Pétur Maack said...

Það eruð þér sem eruð fávitinn unga mær...